Feministinn

feministinn.blogspot.com

ágúst 26, 2004

Opið bréf til félagsmálaráðherra

(bréf sem Þorgerður sendi inn á femínistapóstlistann og femínistaspjallið)
Sæl öll,

Eftir viðtal við Árna Magnússon félagsmálaráðherra í Dægurmálaútvarpi Rásar
2 í gær ákvað ég að senda honum opið bréf.

Fyrir ykkur sem ekki heyrðuð var hann í viðtali með Auði Styrkársdóttur, sem
stóð sig með sóma. Ráðherrann ítrekaði hins vegar rangan skilning á
hugtakinu jákvæð mismunun sem gengið hefur fjöllum hærra síðustu misseri.
Þessi hugtakaruglingur er ekki prívat mál milli mín og ráðherrans heldur
opinber umræða og því taldi ég nauðsynlegt að senda bréfið einnig til
Morgunblaðsins og þess starfsmanns Rásar 2 sem tók viðtalið. Hér fylgir
bréfið, ykkur til fróðleiks.

Kær kveðja, Þorgerður Einarsdóttir

* * *

Opið bréf til Árna Magnússonar ráðherra jafnréttismála

Umræðan um jafnréttismál hefur að undanförnu einkennst af hugtakaruglingi og
grundvallarmisskilningi á fyrirbærinu jákvæð mismunun. Þennan misskilning er
nauðsynlegt að leiðrétta og hef ég gert a.m.k. tvær tilraunir til þess á
opinberum vettvangi, í Speglinum á Rás 1 þ. 20. apríl og í Fréttablaðinu 24.
apríl. Enn kom sami misskilningur fram í máli jafnréttisráðherra í
dægurmálaútvarpi Rásar 2 þriðjudaginn 24. ágúst og af því tilefni er þetta
áréttað hér.

Það er jákvæð mismunun þegar einstaklingur af því kyni sem hallar á er
ráðinn í starf, að uppfylltum lágmarksskilyrðum, jafnvel þótt hæfari
einstaklingur af hinu kyninu sé meðal umsækjenda. Þannig mætti veita karli
starf leikskólakennara að uppfylltri lágmarkshæfni, jafnvel þótt hæfari kona
sæki um. Sama hugmynd liggur að baki umræðunni um að veita tilteknum fjölda
karla skólavist í kennaranámi jafnvel þótt hæfari konur séu meðal
umsækjenda, en sú hugmynd hefur verið viðruð í þeim tilgangi að fjölga
körlum í stéttinni. Þetta eru tvö dæmi jákvæðrar mismununar sem tíðkast
víða, t.d. í Bandaríkjunum, Noregi og ekki síst í Svíþjóð þar sem beiting
slíkra ákvæða fer eftir ströngum skilyrðum. Í jafnréttisumræðunni hérlendis
er þessari jákvæðu mismunun þráfaldlega ruglað saman við ákvæði
jafnréttislaga um bann við mismunun. Meginreglur íslensku laganna hafa verið
skýrðar þannig að þegar val stendur milli tveggja JAFNHÆFRA einstaklinga
skuli veita starfið einstaklingi af því kyni sem er í minnihluta. Enginn
afsláttur er því gefinn í samkeppni um hæfni. Þetta má kalla forgangsreglu
jafnréttislaganna. Þessi túlkun er viðtekin og þykir sjálfsögð og eðlileg
leið til að leiðrétta kynjahlutföll í nútímasamfélögum. Jákvæð mismunun
hefur hins vegar ekki hlotið brautargengi á Íslandi og er almennt ekki
viðhöfð hér í jafnréttisstarfi. Hugmyndum um hana var hreyft á Alþingi 1980
og olli miklum deilum. Þá gerði nefnd félagsmálaráðherra tillögu um jákvæða
mismunun árið 1988 og kom hún fram í frumvarpi um endurskoðuð jafnréttislög
árið 1989. Hugmyndin fékk litlar undirtektir og náði ekki fram að ganga.

Þessi hugtakaruglingur stendur jafnréttisumræðunni og framþróun jafnréttis
fyrir þrifum. Með honum er ýtt undir þá algengu rangtúlkun konur á Íslandi
njóti nú sérmeðferðar á kostnaði hæfari karla, í krafti jafnréttislaganna.
Með þessu bréfi er skorað á ráðherra jafnréttismála að leggja sitt af mörkum
til þess að réttur skilningur sé lagður í grundvallarhugtök þess málaflokks
sem hann ber ábyrgð á.

Þorgerður Einarsdóttir, lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands

ágúst 18, 2004

Ályktun: Barátta kvenna í Framsóknarflokknum

Femínistafélag Íslands fagnar baráttu kvenna í Framsóknarflokknum og tekur
undir með þeim er varðar hlut kvenna í ríkisstjórn. Mikilvægt er að
ríkisstjórn landsins spegli sem best þjóðina sjálfa, svo hagsmuna allra
þegna sé gætt.

Fjölgun kvenna á þingi og í ríkisstjórn hefur gengið hægt þó margt hafi
áunnist. Þrír kvenráðherrar af tólf eru til marks um það. Femínistafélag
Íslands telur að glapræði væri að fækka konum í ríkisstjórn.

Við skorum því á forystu Framsóknarflokksins að koma í veg fyrir slíka
öfugþróun og fara heldur eftir þeim leiðum sem flokkurinn hefur samþykkt til
að ná fram jafnrétti kynjanna. Við skorum á hann að fjölga, frekar en fækka,
konum í ráðherraliðinu nú þegar uppstokkun er í vændum.

Með von um betri tíð með jafnrétti kynjanna,

Femínistafélag Íslands

(ályktun send 18. ágúst 2004)

Tenglar
Femínistaspjall
Femínistadagatal
Starfshópar
Femínistapóstilistinn
Kynjafræði HÍ
Vera
Rannsóknarstofa í kvennafr.
Jafnréttisstofa
Bríet
Tíkin
Kvennasögusafn
Kvenréttindafélag Íslands
Jafnréttisnefnd Hí
Stígamót
Kvennakirkjan
Simone(mbl.is)
Konur(mbl.is)
Femíniskar raddir(kistan.is)
Femínistar Salvör
Myndir Salvör
Um félagið
Viltu gerast félagi?