Feministinn

feministinn.blogspot.com

apríl 30, 2003

Ávarp Femínistafélags Íslands í tilefni 1. maí 2003

sjá nánar á www.feministinn.is/fyrstimai

Femínistafélag Íslands var stofnað þann 14. mars 2003 og telur nú nálægt 500 félagsmenn. Félaginu hefur á örskömmum tíma tekist að rjúfa þá kyrrstöðu sem einkennt hefur jafnréttismál og umræðu um þau í íslensku samfélagi síðastliðin ár. Í tilefni 1. maí, frídegi verkafólks, skorar Femínistafélagið á íslensk stjórnvöld, forystu atvinnulífins og hagsmunasamtök launafólks að gera sérstaka framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að vinna gegn kynbundnum launamun í íslensku samfélagi. Atvinnutekjur kvenna eru aðeins 57% af atvinnutekjum karla og hinn svokallaði leiðrétti launamunur kynjanna mælist um 16%.

Ljóst er að stóraukin menntun kvenna og um 80% atvinnuþátttaka þeirra hefur ekki skilað sér í jafnri stöðu kynjanna á íslenskum vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er sú mesta í hinum vestræna heimi og vinnudagur þeirra einnig lengstur. Vinnuframlag kvenna hefur skipt sköpum fyrir aukna þjóðarframleiðslu og vaxandi hagvöxt á Íslandi undanfarna áratugi. Femínistafélagið vill að konur njóti vinnu sinnar til jafns við karlmenn í launum og stöðuveitingum. Konur eru sárafáar í stjórnunarstörfum á vinnumarkaði og einungis 18,7% forstöðumanna ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Þá eru konur ósýnilegar í forystu atvinnulífsins og í stjórn verkalýðsfélaganna.

Snúum blaðinu við, vinnum að þjóðarsátt um jafnrétti kynjanna.

Femínistafélag Íslands

1 maí 2003
Kröfuganga og fundur


Sjá nánar á www.feministinn.is/fyrstimai

13:00 Hittast við Hallgrímskirkju.
Bolir og merki seld.
Bolur kr. 1000 og merki á kr. 100.
Bolirnir eru bleikir með svörtum stöfum. Aftan á þeim öllum stendur Femínistafélag Íslands, www.feministinn.is Framan á eru nokkrar ólíkar setningar sem hægt er að velja úr. Selt í nokkrum stærðum. Merkin eru líka bleik með svörtum stöfum og með nokkrum ólíkum setningum. PASSA AÐ KOMA MEÐ SEÐLA OG KLINK – ENGINN POSI Á STAÐNUM!

14:00 Gangan hefst
Ath. Femínistar ganga saman aftast í göngunni allir í bleiku. Endilega að mæta með blöðrur, skilti, sápukúlur og allan varning sem þið eigið í bleika litnum.

15:00 Fundur í Þjóðleikhúskjallaranum.
Stutt ávörp, tónlist, ljóð og leiklestur.
Frítt inn, hægt að kaupa sér kaffiveitingar.
Aðgengi til staðar fyrir hjólastóla.

MÆTUM ÖLL!
SÝNUM SAMSTÖÐU!

Draumur Gyðu

Mikil umræða er nú á póstlistanum um stofnfundarávarp Gyðu. Margir netverjar utan femínistafélagsins hafa vitnað í þetta ávarp á bloggsíðum og talið það gefa afar neikvæða mynd af félaginu. Margir femínistar sem hafa tjáð sig á póstlistanum hafa áhyggjur af því að þessi ræða skaði ímynd femínista. Hér sé um að ræða frekar ógnvænlegan draum um öfgafullan hóp sem tekur lögin í eigin hendur þegar þeim ofbýður eitthvað.

Það eru misjöfn viðhorf hjá þeim sem tjá sig á póstlistanum. Margir femínistar eru ósáttir við drauma Gyðu og vilja ekki kynda á nokkurn hátt undir að fólk taki lögin í eigin hendur. En nokkrar raddir heyrast sem taka undir og sumir leggja áherslu á að femínistabaráttan er samsett úr ótölulegum fjölda ólíkra einstaklinga og telja að innan félagsins eigi heima alls konar femínistar. Líka herskáir femínistar.

Siggi pönk póstar á femínistalistann þetta í gær:
Ég tel kjafthátt meðal herskárra feminista vera hið besta mál. Að segja þær hugmyndir sem Gyða varpaði fram í ræðu sinni vera til að hella olíu á eld þeirra sem þegar ganga með fordóma gagnvart feministum og feminisma er eins og að segja að feministar eigi nú að "vera soldið kvenlegir" og ekki láta of mikið á sér bera.

Það er verið að reyna að valta yfir jafnréttisumræðuna á öllum vígstöðvum og þeim sem það vilja leyfist allrahanda kjaftháttur, hví skyldu ekki feministar setja fram radikal hugmyndir eins og þær sem Gyða setti fram?! Að vera byltingarmanneskja er líka mjög rómantískt (miðað við hve andleg ládeyða er hundleiðinleg) og því er hið besta mál að láta hugmyndir vaða sem fá fólk með ranghugmyndir um ákveðið "eðli" kvenna eða "eðli" feminista til að hrökkva við.

Feministabaráttan er líka samsett úr ótölulegum fjölda ólíkra einstaklinga og ræða Gyðu er bara einn flötur á baráttunni.

Bestu kveðjur

Sigurður Harðarson Hjúkrunarfræðingur og Anarkó-feministi

apríl 29, 2003

Jafnréttisstefnur stjórnmálaflokkanna

Svanborg póstar á femínistapóstlistann í dag:
Sem undirbúningur fyrir stjórnmálafundinn sem við héldum safnaði ég að mér jafnréttisstefnum allra flokka (nema nýs afls - og framsóknarflokksins, sem svaraði mér ekki). Ef þið hafið áhuga á að fá þær áframsendar, getið þið haft samband við mig á ssigma@hi.is

Einnig má finna jafnréttisstefnu - eða ályktun - á heimasíðum allra flokkanna en þær eru:

Hjá Framsóknarflokknum: (www.xb.is) http://www.xb.is/stefnuskra.lasso#_JAFNRÉTTI_ER_RÉTTLÆTI sjá einnig ályktun um jafnréttismál frá landsþingi 2003
Hjá Sjálfstæðisflokknum: (www.xd.is)

ályktun landsfundar 2003

Hjá Frjálslyndum: (www.xf.is)

Jafnrétti
"·Frjálslyndi flokkurinn samþykkti jafnréttisáætlun á landsþingi janúar 2001 sem kveður á um það hvernig Frjálslyndi flokkurinn getur unnið að jafnrétti kvenna og karla í stjórnmálum. Markmiðið er að ná jafnri þátttöku kvenna og karla í starfi á vegum flokksins, ákvarðanatöku og ábyrgð.

·Samkynhneigðir njóti fullra mannréttinda og jafnréttis í íslensku samfélagi."
- undir málefnaskrá landsþings 2003

Hjá Nýju Afli: (www.nu.is)

"Nýtt Afl berst gegn misrétti einstaklinganna eða mismunun þeirra vegna kynferðis, trúarbragða eða uppruna."

Hjá Samfylkingunni: (www.xs.is)

ályktun vorþings 2003

Hjá Vinstri Grænum: (www.xu.is)

landsfundur 1999

Með stjórnmálakveðju,

Svanborg Sigmarsdóttir

apríl 28, 2003

Silfur Egils

Myndin hér til hliðar sýnir Egil og viðmælendur í Silfri Egils í byrjun mars. Svo var Femínistafélagið stofnað og femínistar hafa geyst fram á öllum sviðum. Í gær voru þrír stjórnmálafræðingar viðmælendur Egils, tvær konur og einn karlmaður. Á femínistapóstlistann var póstuð í dag úttekt á Silfrinu sem þótti nokkuð gott og þar segir m.a. annars: "...annars hlakkaði pínulítið í mér að í stólum Egils voru tvær sterkar konur sem tókust á á málefnalegum grundvelli á meðan karlinn var svona meira til skrauts.....smá
tilbreyting...".
Við virkum.

Konur um skáld

Soffía Auður bendir á að skipuleggendur bókmenntahátíðarinnar sem verður í haust hafi fengið hingað erlenda gesti í þessum hlutföllum 19 karlar og 3 konur. Hún segir frá framlagi Kistunnar:

Í tilefni af "Viku bókarinnar" gefur vefritið Kistan út vefbókina KONUR UM SKÁLD. Daglega munu birtast greinar eftir kvenskáld og kvenbókmenntafræðinga í þessar vefbók Kistunnar. Tvær greinar eru þegar birtar og má sjá þær enn á forsíðu kistan.is. Síðan verður hægt að skoða bókina undir Bókmenntir > Konur um skáld.

Bestu kveðjur:

Soffía Auður Birgisdóttir
bókmenntafræðingur og ritstjóri Kistunnar.

apríl 23, 2003

Staðalímyndahópur sýnir
Í skóm drekans 25. apríl kl. 22 í Laugarásbíó


Góðan daginn kæru femínistar.

Staðalímyndahópur Femínistafélags Íslands stendur fyrir sýningu á heimildarmynd Hrannar og Árna Sveinsbarna, Í skóm drekans, á föstudaginn kl. 22:00 í sal B, Laugarásbíó. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þau ykkar sem ekki hafa séð myndina - eða viljið sjá hana aftur :) Myndin hlaut Edduverðlaunin árið 2002 sem besta heimildarmyndin.

Myndin er sýnd sama kvöld og keppnin Ungfrú Ísland.is fer fram, sem er vel við hæfi því myndin er einmitt heimild um fyrstu Ungfrú Ísland.is keppnina. Fjölmennum nú öll í bíó og sjáum hvernig það er að vera í skóm drekans!

Kær kveðja
F.h. Staðalímyndahóps
Katrín Anna Guðmundsdóttir

Málþing um jafnréttishugtakið 28. apríl
Rannsóknastofa í kvennafræðum og jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar bjóða til málþings um jafnréttishugtakið mánudaginn 28. apríl. Aðalfyrirlesari er einn helsti sérfræðingur Evrópu í samþættingu jafnréttismála við almenna stefnumótun og ákvarðanatöku, dr. Teresa Rees við Cardiff háskóla í Wales.
(http://www.cf.ac.uk/socsi/whoswho/reesT.html)

Hvað felur hugtakið jafnrétti í sér? Lengst af hefur jafnréttishugtakið verið notað yfir kynjajafnrétti en á síðari árum er sífellt meiri áhersla á jafnrétti minnihlutahópa. Á málþinginu verður rætt hvernig baráttan fyrir kynjajafnrétti getur nýst í annarri jafnréttisbaráttu.

Málþingið er haldið í Tjarnasal Ráðhúss Reykjavíkur mánudaginn 28. apríl kl. 14:00.

Fundargerð - Ráðsfundur 14. apríl 2003 að Laugavegi 7

Mætt voru: Katrín Anna Guðmundsdóttir, Dagný Kristjánsdóttir, Birna Þórarinsdóttir, Kristín Ása Einarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Andrea Róbertsdóttir, Salvör Gissurardóttir, Arnar Gíslason, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.


1. Dagskrá 1. maí. Ákveðið að Feministafélagið taki þátt í göngunni 1. maí og láti mikið á sér bera með fánum, bolum, merkjum, blöðrum og öðru sem til fellur. Einnig var ákveðið að hafa fund á eftir göngunni. Andrea tók að sér að kanna hvort hægt væri að fá Þjóðleikhúskjallarann og einnig að kanna verð á bolum og áletranir á þá. Arnar tók að sér að kanna verð á merkjum og áletranir á þau. Fram komu hugmyndir um áletranirnar: Ég er feministi og manneskja ekki markaðsvara. Dagný tók að sér að kalla saman menningarhópinn til að setja saman dagskrá fyrir fundinn í kjallaranum. Kristín Ástg. tók að sér að athuga hvort félagið gæti fengið ræðumann á Ingólfstorgi og einnig að leita að styttunni sem notuð var í göngu Rauðsokkahreyfingarinnar árið 1970.

Rætt var um kynningu á aðgerðunum í fjölmiðlum og tilmæli komu frá fjölbreytileikahópnum um að hafa túlkun og aðgengi fatlaðra í huga við val á fundarstað og á fundinum sjálfum. Þá var nefnt að nauðsynlegt yrð að kalla til spjaldakvölds til að útbúa kröfuspjöld.

Vegna tímaleysis var fleira ekki gert en ákveðið að halda næsta fund fimmtudaginn 24. apríl kl. 11.00 að Laugavegi 7.


Kristín Ástgeirsdóttir.

Korter í kosningar

Margir femínistar eru í eldlínu stjórnmálanna þessa daga. Femínistar eru í öllum stjórnmálasamtökum. Í dag eru logandi umræður á feministinn@hi.is um auglýsinguna "Konur nú er komið að ykkur að stjórna". Þrjár greinar voru í Mbl. í gær um auglýsinguna.

Guðrún Helgadóttir póstaði í kjölfar umræðna:
"Sæl öll, ég verð að taka undir með þeim sem hafa verið að frábiðja sér flokkspólitískan áróður í umræðunni. Að sjálfsögðu skiptast feministar í flokka og hér á listanum höfum við séð mishallærislega tilburði flokksbundinna til að vekja athygli á hve þeirra flokkssystkin séu "góðir" feministar og feministar úr öðrum flokkum að sama skapi lélegir feministar. En flokkspólitískar línur inní hreyfingu feminista eru skurðir og það blæðir úr þeim. Svo reynið að stilla ykkur í hita leiksins, í þessu samhengi og á þessum póstlista erum við í öðru leikriti og öðrum hlutverkum en á kosningaskrifstofunum. Ég held að áhrifin héðan eigi meira erindi inná kosningaskrifstofurnar en öfugt. Ég skora á alla á þessum lista að sýna þessum fáu konum sem hafa þó stigið fram sem stjórnmálamenn þá virðingu að fjalla málefnalega um þeirra verk, hvar í flokki sem þær standa."

Fleiri slagorðatillögur:
F(em)ÍN eins og ég er.
Hvað byrjar á f og er feiknasterkt?"
ég er LÍKA feministi.
Femínistar rokka.

apríl 22, 2003

Fundargerð frá hópi ungra femínista
Fyrsti fundur hóps ungra feminista var haldinn skírdag, 17. apríl, kl. 16:00, í Odda, Háskóla Íslands:
Mætt voru: Sverrir , Vala, Birna,Erla ,Helga, Júlía, Þröstur, og Bryndís .


Hugmyndir um tilgang hópsins :
- hópur um umræður um ungt fólk
- snúi að ungu fólki um ungt fólk


Hugmyndir um nafn
- ungir femínistar ( ein ósátt við nafnið finnst eiga meira við að sýna að þetta sé um málefni ungs fólks en ekki bara starf fyrir ungt fólk )
- eitthvað ótengt nafn
- hópur ungra femínista
- í undirmáls grein - >málefni ungs fólks

samþykkt:
Hópur ungra femínista
- málefni ungs fólks

Markmið hópsins er að fjalla um málefni sem snúa að ungu fólki, taka þátt í og vekja upp umræðu um raunverulegt jafnrétti kynjanna.

Markhópur hópsins er fólk á aldrinum 15 –20 ára, 20- 30 ára og foreldrar.

Aðgerðir 1. maí voru ræddar. Allir sammála um að hafa a.m.k. eitt slagorð fyrir hópinn en almenn deyfð var yfir fólki um það hvernig slíkt slagorð gæti hljómað. Dæmi um þær hugmyndir sem komu fram:
- fleiri karla í stjórnaráðið!
- eiga börnin þín sömu möguleika?
- áttu 50% barn ?

Samþykkt að velta málinu fyrir sér og athuga hvort ekki kæmu fram betri hugmyndir á netinu. Hér með er óskað eftir betri hugmyndum!

Kjölfestur voru ekki kjörnar á fundinum. Það verður gert á næsta fundi þegar mæting verður vonandi betri. Næsti fundur verður fljótlega og vonandi ekki á frídegi!

Birna Þórarinsdóttir

Fundur atvinnu- og efnahagsmálahóps 23. apríl
Ég minni á fyrsta fund hópsins um atvinnu- og efnahagsmál á morgun kl. 17.00 að Laugavegi 7, 3. hæð. Ég veit að þetta er vondur tími, en það er sko hægara sagt en gert að finna tíma sem hentar innan um alla þessa frídaga. Þeir mæta sem geta.
Kveðja,
Kristín Ástgeirsdóttir.

Menningarspor

Eftirfarandi ljóð eftir Lilju Björnsdóttur var sent inn á feministinn@hi.is í dag:

Þau marka svo djúpt okkar menningarspor
og margan það kætir að vonum
Nú halda þeir sýningar haust bæði og vor
á hrútum og nautum og konum

(Liljublöð, 1960)

Fyrsti maí
ganga og samkoma - barmmerki og bolir


Nú stendur yfir undirbúningur undir 1. maí. Meiningin er að femínistar verði saman og vel sýnilegir í göngunni og seld verða barmmerki og bolir í göngunni og áður en hún byrjar. Bolirnir verða seldir á 1000 kr. Einnig er því beint til málefnahópa og einstakra femínista að hafi slagorð/ skilti. Svo er ætlunin að hafa samkomu eftir gönguna í Þjóðleikhúskjallaranum kl. 15-17.

Nú hefur farið fram umræða á feministinn@hi.is um slagorð. Þar hafa meðal annars komið fram þessi slagorð:



Ég er femínisti
Þriðja hver kona í heiminum verður fyrir ofbeldi
Manneskja ekki markaðsvara
Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur EKKI verið náð og vill gera eitthvað í því
Vændi er ofbeldi
Sömu laun fyrir sömu vinnu
Á haugana með grútmyglaða afganga feðraveldisins
Cogito ergo feminista sum (á latínu, þetta þýðir: Ég hugsa - þess vegna er ég femínisti)
Sannir karlmenn eru feministar
Sannar konur eru feministar
Ég hugsa-þess vegna er ég feministi
Sannir karlmenn eru feministar
Sannar konur eru feministar
Ég er líka femínisti
Hver ræður, tískan eða þú?
Manneskja ekki markaðsvara
Ég er kona, ekki kjöt
Ég er karl, ekki kjöt
Konur eru menn
Karlmenn eru konur
Konur eru karlmenn
Karlmenn eru menn
Ég er kkkkna
Ég er stttlpa
Grunar þig að þú sért femínisti?
Kvennastörf = láglaunastörf ... af hverju?
Háreyðing, sílíkon, strekking, megrun ... frelsi eða helsi?
Sönn karlmennska ... frelsi eða helsi?
Hver ræður, tískan eða þú?
Femínistar eru fínir
Af hverju er dóttir þín með lægri laun en sonur þinn?
Hvar er jafnréttið? Konur eiga um 1% eigna í heiminum
Geta pabbar ekki grátið?
Femínismi, öllum til góðs

Glyðrugildran

Við virkum!
Gagnrýni og umræða á feministinn@hi.is um kynjaða orðræðu í auglýsingum, blaðagreinum og orðavali þáttastjórnenda í fjölmiðlum hefur þegar haft áhrif. Í mörgum tilvikum hafa aðilar brugðist vel við gagnrýni um leið og þeir hafa fengið að vita af henni. Sérstaka athygli hefur vakið að blaðamenn Morgunblaðsins hafa oftar en einu sinni brugðist fljótt og vel við.

Arnar skrifar þetta á póstlistann í dag:
Halla Gunnarsdóttir (halla81) setur út á gagnrýni mína um þýsku tæknósveitina Scooter sem birtist í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 16. apríl. Þar segir hún m.a.: "Í umfjöllun um Scooter tónleikana var talað um áhorfendaskarann og minnst á vöðvastælta karlmenn í hlýrabolum. Svo segir blaðamaður kvenpeninginn hafa verið í yngri kantinum en helst til
glyðrulega klætt!!!!"

Orðrétt var þetta svona: "Áhorfendaskarinn var nokk merkilegur á að líta. Mér leið eins og aumingja, þar sem vöðvastæltir menn voru að því er virtist á hverju strái. Og hlýrabolir vinsælir. Kvenfólkið var flestallt í yngri kantinum og dálítið glyðrulegt á að líta"

Ég hef verið að velta þessu fyrir mér og ég er sammála Höllu. Biðst hér með forláts á þessari orðanotkun og ætla að leggja mig fram um að vera vakandi í framtíðinni. Í orðum felast fordómar og hugsunarleysi, það er rétt. Ég fletti orðinu upp í orðabók og þar komu þessar skýringar: "daðurdrós, léttúðardrós, flenna, gála."

Rétt er að þegar ég lýsi körlunum, vísa ég í limaburð þeirra. Þegar ég lýsi stelpunum, þar sem einkennið var stuttir kjólar og stuttir bolir, gríp ég í þetta lýsingarorð, sem gefur til kynna að um léttlynd kvenfólk sé um að ræða, sem sé til í tuskið.

Ég get því ekki annað séð en að ég sé sekur um að hafa dottið ofan í málfarspytt feðraveldisins. Réttast hefði verið að segja að einkenni stúlkna hefði verið stuttir kjólar og láta glyðrulýsinguna eiga sig. En með því er ég líklega að koma upp um mig aftur, þar sem manni er uppálagt að tengja stutt pils beint við kynlíf! Stelpurnar sem ég sá þarna voru auðvitað bara að fylgja ákveðinni tísku, tísku sem að mínu viti gefur frá sér mjög vafasöm skilaboð (klæðamáti Spears og þeirra allra).

Annað sem kemur fram í dómi mínum var þetta: "Leysigeislasýningin kröftug, svo og fáklæddir, kvenkyns dansararnir sem líða um sviðið hellandi vatni hvor á annan og gefandi ýmislegt órætt í skyn." Þegar maður er að skrifa gagnrýni sem þessa reyni ég að lýsa því sem fyrir augu ber, eins hlutlægt og mér er unnt (en tókst ekki nógu vel upp í þetta skiptið ;o)). Scooter gerðust að sjálfsögðu sekir um kvenfyrirlitningu, þar sem fáklæddir kvenmenn fettu sig og brettu, hellandi vatni á hvor aðra og nuddandi sér upp við hvor aðra á munúðarfullan hátt. Sem tónlistarrýni hef ég gaman af Scooter og finnst þeir nokk fyndnir. En kannski er þetta ekkert fyndið þegar öllu er á botninn hvolft, þar sem búið er að niðurnjörva ákveðna ímynd af konum í sviðsframkomu Scooter.

Það sem er erfiðast við "baráttu" þá sem femínistar eiga í er að fordómarnir gegnsýra svo margt. Ég hef t.d. talið mig frekar opinn, réttsýnan mann en svo fellur maður í gryfjur eins þessa "glyðrugryfju". Vonandi verð ég meira vakandi í framtíðinni.

Kærar kveðjur og vonandi er batnandi mönnum best að lifa!

Arnar

apríl 14, 2003

Fundur í femínista og karlahópi

Hæhæ
Þá er komið að fyrsta fundi "femínisma- og karlahóps" en hann verður haldinn þriðjudaginn 15. apríl kl. 19:00 í Kvennagarði (Laugavegi 59, efstu hæð...bónus er í sama húsi). Á fundinum planleggjum við m.a. aðgerðir ársins sem verða nokkrar og við byrjum þann 1. maí. með pésadreifingu til karla um jafnréttismál.

Kær kveðja
Gísli Hrafn Atlason

ps. Arnar Gíslason leysir mig af eða sinnir ráðskonustörfum ásamt mér. netfangið hans er elvis@hi.is og síminn hjá honum er 691 9126. Nú og mitt númer vantar á síðuna en það er (+45) 46364714

apríl 12, 2003

Hvaða áhrif hafa hálfnaktar
poppstjörnur á 8-12 ára stelpur?

Vísindavefurinn svarar því hérna

Kristín Ástgeirsdóttir segir um stjórnmálafundinn:
Stjórnmálafundurinn tókst ljómandi vel, salurinn þéttsetinn og formið stórfínt undir styrkri stjórn Sigríðar Lillý. Kristín Ása flutti stutt erindi þar sem hún fór yfir stöðuna og síðan röðuðu spyrjendur og stjórnmálamenn sér í tvær raðir, þar sem var spurt og svarað á víxl eftir málaflokkum. Góð umræða og greinilegt að það sem fram kom um klám, fatnað á litlar stelpur o.fl. hafði mikil áhrif á frambjóðendur. Góð byrjun - höldum áfram á sömu braut, af nógu er að taka.

Kvenréttindafélagið kærir Flugleiðir
Úr Morgunblaðinu 11. apríl: Stjórn Kvenréttindafélags Íslands hefur ákveðið að kæra Flugleiðir (Icelandair) til kærunefndar jafnréttismála fyrir auglýsingar flugfélagsins sem félagið telur gefa í skyn fjörugt næturlíf á Íslandi og að íslenskar konur séu auðfengnar til skyndikynna. Þorbjörg I. Jónsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, sagði við Morgunblaðið að ákveðið hefði verið að kæra á grundvelli 18. greinar jafnréttislaga, en þar segir að "auglýsandi, og sá sem hanni og birti auglýsingu, skuli sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt." Auglýsingarnar sem félagið vísar einkum til hafa birst víða erlendis undir slagorðunum "Dirty Weekend" og "One night stand". Þorbjörg sagði kæruna einnig byggjast á heildarútliti og stefnu auglýsinga Icelandair og því viðhorfi sem virtist vera uppi gagnvart ferðalögum til Íslands.

Frestun á "Konur með friði"
Miklar umræður voru á póstlistanum varðandi þá ákvörðun að fresta áður boðunum Konur með friði fundi á Arnarhól. Vildu margir femínistar ekki sættast á þá frestun, töldu að ekkert hefði breyst í heimsmálunum og stríðinu í Írak sem minnkaði gildi af slíkum fundi.

Konur og 6 milljarðarnir margumræddu

Kristín Ástgeirsdóttir póstar á femínistapóstlistann:
Samkvæmt tölum Hagstofunnar:
Konur voru 1,2% þeirra sem unnu við veitustarfsemi árið 2002, karlar 98,8%! Konur voru 14% þeirra sem unnu við mannvirkjagerð árið 2002, karlar 86%!Er nema von að við spyrjum: hverjir munu njóta góðs af 6 milljörðunum? Ekki konur!

apríl 10, 2003

Fundur stjórnmálahóps FÍ um jafnréttismál

Stjórnmálahópur Femínistafélags Íslands býður til morgunfundar Grand hótel í fyrramálið (föstudaginn 11. apríl) kl. 8.15-10. Kristín Ása Einarsdóttir mun halda stutt erindi, en síðan munu fulltrúar flokkanna sitja fyrir svörum.

Þeir verða:
Björn Ingi Hrafnsson frá Framsókn,
Margrét Sverrisdóttir frá Frjálslyndum
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frá Samfylkingunni,
Katrín Fjeldsteð og Guðrún Inga Ingólfsdóttir frá Sjálftæðisflokknum
Steingrímur J. Sigfússon frá Vinstri-Grænum.

Fh undirbúningsnefndar
Kristín Ástgeirsdóttir
Svanborg Sigmarsdóttir

Sendið þennan póst áfram til þeirra sem þið haldið að hafi áhuga.
Staða kvenna og karla á Íslandi – tölur af handahófi:
Konur eru 37% þingmanna, karlar 63%.
Konur eru 31% sveitastjórnarmanna, karlar 69%.
Konur eru aðeins 18,7% forstöðumanna ráðuneyta og undirstofnana þeirra.
Engin kona er ráðuneytisstjóri.
Sendiherrar eru 28, þar af er ein kona!
Konur eru flestar í nefndum heilsugæslunnar eða 49%.
Sjávarútvegsráðuneytið er neðst á lista, þar eru konur aðeins 15% nefndarmanna.
Engin kona er í forsvari fyrir þau 63 fyrirtæki sem eru skráð í Kauphöllinni.
Konur eru skráðir eigendur 18% fyrirtækja í landinu.
Hvar eru konurnar í forystu ASÍ og SA?
Hvað varð um konurnar í forystu verkalýðshreyfingarinnar (ASÍ).
Konur eru 30% þeirra sem birtast á sjónvarpsskjám landsmanna, karlar 70%.
Konur flytja aðeins 15% talaðs máls í sjónvarpi, karlar 85%.
Þriðja hver kona í heiminum verður fyrir ofbeldi.
Íslenskar konur eru fallnar úr fyrsta sæti niður í það níunda hvað varðarlífslíkur.
Er þetta ásættanlegt?

Fyrsti fundur staðalímyndahóps

Fyrsti fundur staðalímyndahóps var haldinn mánudaginn 5. apríl. Óhætt er að segja að hugur sé í hópnum og mikill vilji til aðgerða. Á fundinum voru fjörugar umræður um staðalímyndir og neikvæð áhrif þeirra, ræddar voru hugmyndir að aðgerðum, lit og merki félagsins og margt fleira. Áherslur hópsins næstu daga verða að skipuleggja aðgerðir gegn fegurðarsamkeppnum og að skrifa staðlað bréf sem senda á fyrirtækjum sem þykja nota miður æskilegar staðalímyndir í auglýsingum eða markaðssetningu.

apríl 09, 2003

Fundir á næstu dögum

Fræðsluhópur
Fræðsluhópurinn hittist í kvöld 9. apríl á Kaffi List (efri hæð). Kl. 20:00.
Kristín Ása
ráðskona Fræðsluhóps

Margbreytileikahópur
Hópur um margbreytileika hittist á Litla ljóta andarunganum klukkan níu fimmtudagskvöldið 10.4.
Svandís Svavarsdóttir
ráðskona Margbreytileikahóps


Ofbeldisvarnarhópur
Við ætlum að hittast í dag klukkan 17:00 hjá Rúnu þ.e. Stígamótum Vesturgötu 3.
Andrea Róberts
ráðskona Ofbeldisvarnarhóps

Hádegisverðarfundur ÍMARK
Næsti hádegisverðarfundur ÍMARK verður haldinn þriðjudaginn 15. apríl í Ársal Radisson SAS Hótel Sögu, kl. 12.00-13.30.
Kynímyndir í auglýsingum er yfirskrift fundarins, þar sem m.a. verður fjallað um:

- Hvaða ímyndir höfum við af kynjunum?
- Hvaðan koma þessar ímyndir?
- Hvernig má greina hlutverk kynjanna og virðingu í auglýsingum?
- Kynferðislegur undirtónn í auglýsingum
- Kynlíf sem söluvara
- Áhrif af staðalímyndum

Framsögumenn á fundinum eru:

Gunnar Hersveinn, heimspekingur og blaðamaður
Örsaga kynjanna
- goðsagnir í auglýsingum

Katrín Anna Guðmundsdóttir, M.Sc. Viðskipta- og markaðsfræðingur
Hvar er sterka, sjálfstæða konan?

Elfa Ýr Gylfadóttir, fjölmiðlafræðingur
Kynímyndir og neyslumenning.

apríl 07, 2003

Konur með friði>/big>

Konur eru hvattar til þess að koma saman á útifund á Arnarhóli föstudaginn 11. apríl næstkomandi kl. !6:15 og sýna þannig hug sinn til stríðs og afleiðinga þess. Við vonum að sem flestar konur séu tilbúnar að leggja þessu máli lið og biðjum þig um að setja nafn þitt á auglýsingu sem birt verður í Morgunblaðinu fimmtudaginn10.apríl. Texti hennar er eftirfarandi:

Orðræður ? samningar ? lýðræði.

,,Konur með friði" hafna stríði og ofbeldi sem aðferð til að leysa ágreining manna og þjóða í milli, en leggja áherslu á aðferðir sem eru sæmandi siðmenntuðu fólki.

Stríð á upptök sín í hugum mannanna og það er einungis með breyttu hugarfari sem friður verður treystur. Til þess að svo megi verða þarf nýja orðræðu sem er laus undan oki hernaðarhugarfars. Samninga sem taka mið af mannúð, skilningi og friðarvilja manna og þjóða í milli. Lýðræði sem rís undir nafni, lýðræði þar sem valdhafar ? erindrekar almennings ? fara að vilja hans, ekki gegn.

Við hvetjum því alla sem vettlingi geta valdið að skunda á Arnarhól og sýna vilja sinn og samstöðu með fórnarlömbum stríðs og taka undir með þeim alheimskór manna og kvenna sem vilja frið fyrir börn sín og framtíð.

Ef þú ert tilbúin/inn að ljá þessu lið, sendu þá nafn þitt og starfsheiti á netfangið konur@isl.is

Einnig biðjum við þig að leggja a.m.k. kr. 1.000.- af mörkum til að standa undir kostnaði við birtingu auglýsingarinnar.
Bankareikningur: 0513-14-604908 kennitala 250345-2089
Vinsamlega gefið upp kennitölu við innlögn á reikninginn.

VERTU MEÐ!
Við þurfum auk þess að fjölmenna að;
1. Hafa með okkur hvítt kerti, hvítan klút eða hvítt blóm
2. Hengja upp þessa tilkynningu á vinnustaðnum og hvetja sem flesta til
þátttöku.

Með von um góð viðbrögð og samstöðu,

Fyrir hönd undirbúningshóps ,,Konur með friði"
Þórhildur Þorleifsdóttir.

apríl 04, 2003

Umræður á póstlista
Svanborg Sigmarsdóttir ssigma@hi.is í forsvari stjórnmálahóps núna á meðan Rósa Erlingsdóttir er erlendis.

Nú fara fram miklar umræður á femínistapóstlistanum, 80 bréf á dag eða meira. Félagar í Femínistafélaginu eru núna orðnir tæplega 400. Umræður snúast m.a. um hugmynd um jafnréttisviðurkenningu sem er ekki eins stofnanaleg og t.d. frá jafnréttisráði og að veita líka einhvers konar skammarverðlaun fyrir "andfemínista ársins". Bent var á Fréttablaðið vegna gengdarlausrar kvenfyrirlitningar nánast á hverjum degi í blaðinu s.s. grein um "drátt á spottprís" í Hafnarfirðinum, en í því samhengi var talað um "frelsi karla" til þess að kaupa sér vændi og jafnvel "sjálfsögð mannréttindi!"

Bent var á að í bloggfærslu gærdagsins á vefnum Badabing.is stærir bloggarinn sem einnig er blaðamaður Fréttablaðsins sig af því að vera karlremba. Einkennilegt þykir að blaðamaður á fjölmiðli sem leitast við að vera óháður lýsi slíku yfir. Spurt er hvort honum þætti eðlilegt að segja frá því glaðhlakkalega að hann væri rasisti?

Sækjast konur síður eftir stjórnunarstörfum?
Bent á könnun um konur í stjórnunarstörfum sem samtök atvinnulífsins hafa látið gera. Eins og bent er á þá blasir við að flestir sem svöruðu könnuninni eru karlar. Því vekur það undrun og furðu að dregnar séu ályktanir á borð við þá sem slegið var upp sem fyrirsögn í Morgunblaðinu og á vef SA. Hvernig er þá hægt að álykta að “konur sækist síður eftir stjórnunarstöðum”?

Sif Einarsdóttir rökstyður þar:
Í fyrsta lagi, þykir mér hér ekki mjög varlega ályktað eins og vísindaleg vinnubrögð gera ráð fyrir. Finnst mér nær að álykta (með fyrirvara um að ég hef litlar upplýsingar um aðferðafræði könnunarinnar) að “stjórnendur sem flestir eru karlmenn telji að konur sækjast síður eftir stjórnunarstöðum”.

Í öðru lagi hafa aðrar rannsóknir sýnt annað. Ég tek mér leyfi og vitna í annan meðlim póstlistans um það (sjá neðar).

Í þriðja og síðasta lagi slær það mig mjög að hér séu raunverulega karlar (eða hópur sem líklega samanstandur aðallega af körlum) látnir “tala fyrir munn kvenna” með því að draga þá ályktun að konur sækist síður eftir stjórnunarstöðum en karlar. Hér eru það ekki konur sem eru látnar tala fyrir sig sjálfar heldur karlar og þykir mér það mjög miður.

Bent var á nýjan vef www.hgj.is sem er hluti af stærra verkefni um að samþætta atvinnu- og fjölskyldulíf.

Gerð er tillaga um að veita árlegum verðlaunum/viðurkenningum fyrir aðila í samfélaginu sem standa sig vel og halda femíniskum sjónarmiðum á lofti

Embættismenn borgarinnar
Ingibjörg Stefánsdóttir sagði frá að haustið 1993 gerði hún úttekt á æðstu embættismönnum Reykjavíkurborgar og birtist grein um það í Vikublaðinu. Þá voru þá tvær konur í hópi æðstu embættismanna Reykjavíkurborgar, að hún heldur borgarbókavörður og borgarminjavörður. Hvorug þeirrameð aðsetur í Ráðhúsinu eða í nálægð við "valdið" þar. Þar voru eingöngu karlar, miðaldra karlar, flestir ef ekki allir með bein tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Nú eru konur meira en helmingur æðstu embættismanna Reykjavíkurborgar.

Nýja aflið og konurnar
Bent var á að Nýja aflið, nýi stjórnamála hópurinn hefði e6 karlar (allir 45 ára +) í forsvari og þeir hafa ekki minnst einu orði á jafnrétti.

Vændi
Hvergi annars staðar á Norðurlöndunum hefði kona verið handtekinfyrir að stunda vændi, en hins vegar hefði athyglin beinst að þeim sem virðist gera hana út. Og Svíar hefðu beint sjónum sínum að þeim sem keypt hefðu sér kvenlíkama.

Sorgleg vefsíða
það er til síða sem heitir www.menn.is sem er vægast sagt sorgleg.

Sorgleg auglýsing
Svo var auglýst hjá útvarpsstöð í bænum ( Ég held að það hafi veið FM 957 en ég þori ekki að fara með það) að þær stúlkur sem kæmu upp á stöðina og beruðu brjóstin fengu ókeypis miða í scoter tónleikana.

apríl 03, 2003

Daglegt Hugarstríð Sigga Pönk

Wednesday, April 02, 2003
Þegar við horfum í ofbeldi erum við að horfa á ótta. Grundvallaratriðið er ótti. Ekki bara sá ótti sem ofbeldi er ætlað að skapa hjá þolandanum heldur mótast hegðun gerandans einnig af ótta.

Sama hvort átt er við mann sem beitir ofbeldi á heimili sínu, slagsmálahund í miðbænum, lögregluþjón í starfi eða þingmann sem samþykkir innrás í annað ríki. Þessir einstaklingar láta allir stýrast af ótta.


Vændiskona ein lýsir því í bókinni “Live Sex Acts” að þeir kúnnar sem beittu hana ofbeldi vildu með því refsa henni fyrir að sjá þá á viðkvæmu augnabliki kynferðislegrar fullnægingar. Hún var búin að sjá þá varnarlausa, sjá þá sem manneskjur og þá var hún búin að sjá of mikið.


Líklega eru þeir ekki vissir um hvort nokkuð er að sjá þegar varnir þeirra falla. Þeir þekkja ekki sjálfa sig og lifa því við óöryggi. Og enginn má vita af þessu óöryggi því þeir halda óöryggi vera dauðasynd. Þessvegna hata þeir sjálfa sig í raun því þeir lifa með því sem þeir fyrirlíta.


Enginn maður getur lifað með því að fyrirlíta sjálfan sig. Engin manneskja getur það. Því verður til afneitun og yfirfærsla. Einhverjir aðrir verða fyrir sjálfshatrinu og óttanum. Nærtækast er að yfirfæra óttann yfir á einhvern sem ekki getur varið sig svo nokkru nemi, annað væri sjálfsmorð og þeir lifa alltaf í voninni um að lífið verði betra. Lifa í lyginni um að lífið sé ekki svo slæmt, bara alltof mikið af fíflum í heiminum og þau virðast sækja að þeim og fíflum þarf að segja til ætli maður ekki að verða eitt af þeim.


Gangandi með þessa meinloku í sálinni verður ofbeldi tjáningarmáti tilfinninganna og eina tilfinningin er áðurnefndur ótti. Sá sem ekki elskar sjálfan sig getur engan annan elskað heldur.


Þeir eru brotnar manneskjur og kunna ekki annað en að brjóta aðrar manneskjur til að vera aðeins minna einir í heiminum.


Heilun þessarar sálar getur orðið gegnum burtsæringar þess djöfuls sem situr í þeim. Sem er óttinn. Áttun verður að fara fram á því að óöryggi er eðlileg tilfinning þeirra sem ekki þekkja sjálfan sig. Ein leið til að þekkja sjálfan sig er að skilja vandamál sín og eðli þeirra og kunna að lifa með þeim. Að taka sjálfan sig í sátt eins og maður er, er lausn og hún breytir persónunni um leið.


Enginn ofbeldismaður getur verið raunverulega sáttur við sjálfan sig fyrr en hann er laus við óttann. Hann hættir að sjá ógn í því að aðrir séu honum sterkari eða fremri á einhverjum sviðum. Hann getur þá séð annað fólk sem jafningja og losnar við þörfina að sigra nokkurn mann því hans stærsti sigur er unnin á hverjum degi; þegar hann neitar sjálfum sér um að vera sá sjúki einstaklingur sem hann hefur leikið svo árum skiptir.


Hann lærir að finna og rækta feministann í sér með því að sjá út, læra að þekkja og sigrast á sjúkleika sem getur verið að finna í samskiptum hans við umhverfi sitt.


Sannir karlmenn eru feministar.

Stígamót með stjórnmálafund
um kynferðisofbeldi 4. apríl kl. 12 í Hlaðvarpanum


Stígamót gangast fyrir opnum fundi með frambjóðendum flokkanna í Hlaðvarpanum föstudaginn 4. apríl kl.12. Á dagskrá verða málefni kynjanna með sérstakri áherslu á kynferðisofbeldi í sinni víðustu mynd. Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið um klám og vændi og hvernig stjórnvöld ættu að bregðast við. Við förum þess á leit við flokkana að þeir geri grein fyrir helstu áherslum í þessum málaflokki.

Gestir okkar verða Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra, Jónína Bjartmarz og Árni Magnússon frá Framsóknarflokki, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ágúst Ólafur frá Samfylkingunni, Kolbrún Halldórsdóttir frá VG og Sigurður Ingi Jónsson fyrir Frjálslyndra. Fundarstjóri verður Brynhildur Flóvenz.

Boðið verður upp á súpu og brauð og gert er ráð fyrir að fundurinn standi frá kl.12-14. Við höfum óskað eftir því að fulltrúar flokkanna flytji 5-10 mínútna innlegg og síðan verði umræður á eftir.

apríl 02, 2003

Framhaldsaðalfundur í Hlaðvarpanum 1. apríl 2003

Mikil stemming var á framhaldsaðalfundinum, það var húsfyllir og þurftu margir að standa.
Hér er dagskrá fundarins
Hér eru nokkrar myndir af fundinum í Hlaðvarpanum.
Á fundinum var samþykkt skipan á félagsstarfinu en það byggist upp á 11 málefnahópum og fyrir hverjum hópi fer ráðskona /ráðskarl. Á fundinum var samþykkt starfsáætlun fyrir næsta ár og lög félagsins.

Tenglar
Femínistaspjall
Femínistadagatal
Starfshópar
Femínistapóstilistinn
Kynjafræði HÍ
Vera
Rannsóknarstofa í kvennafr.
Jafnréttisstofa
Bríet
Tíkin
Kvennasögusafn
Kvenréttindafélag Íslands
Jafnréttisnefnd Hí
Stígamót
Kvennakirkjan
Simone(mbl.is)
Konur(mbl.is)
Femíniskar raddir(kistan.is)
Femínistar Salvör
Myndir Salvör
Um félagið
Viltu gerast félagi?