Feministinn

feministinn.blogspot.com

október 27, 2003

Fréttabréf á hverjum degi

Femínistavikan fer fram af miklum krafti. Það hefur verið fjölmenni í öllum samkomum og fundum og mikil stemming. Það er gefið út rafrænt fréttabréf á hverjum degi á meðal á femínistavikunni stendur.

Hægt er að fylgjast með mörgum atburðum á Netinu því við höfum sett stutt videóklipp á vefinn til að gefa innsýn í hvernig viðburðir fóru fram. Hér eru nokkur videoklipp:
Hér eru nokkur:
http://www.feministinn.is/feministavikan/sarsauki2.wmv
http://www.feministinn.is/feministavikan/timinn2.wmv
http://www.feministinn.is/feministavikan/umraedur2.wmv
http://www.feministinn.is/feministavikan/messa-katrin.wmv
http://www.feministinn.is/feministavikan/domar.wmv
http://www.feministinn.is/feministavikan/ecce/lifsjatning.wmv

október 24, 2003

Ecce Femina! 24. október
„Ecce femina“ sýningin opnaði í Hafnarhúsinu síðdegis 24. október og í tengslum við opnun sýningarinnar var flutt bókmenntadagskrá um sjálfslýsingar kvenna, einkum í ævisögum og endurminningum. „Ecce femina“ þýðir bókstaflega „Sjáið konuna!“ Hvað er átt við með því? Sjáið hvernig kona þetta er? Sjáið hvað hún er? Sjáið hvernig hún lýsir sér? Sjáið hvað hún vill segja ykkur?
Listakonurnar tólf sem takast á við sjálfsmynd sína á þessari sýningu, sýna sitt innra sjálf á hefðbundinn, jafnt sem óhefðbundinn hátt. Þær bjóða upp á sjálfsmynd sem er ásköpuð eða valin af þeim eða öðrum.
Eftir dagskrána bauð Reykjavíkurborg upp á veitingar.

Launafundur 24. október
„Launafundurinn var afar vel sóttur, það mættu á þríðja hundrað manns og salurinn á Grand Hótel var troðfullur.

Svanhildur Sigmarsdóttir segir frá fundinum í þessari grein á Kreml.


Myndir frá fundinum:


Vídeóklipp frá fundinum

október 23, 2003

Femínistavikan hefst á morgun

Dagskráin er hérna http://www.feministinn.is/feministavikan/dagskra.htm

Nánari upplýsingar um vikuna eru á www.feministinn.is og á sérstakri síðu um femínistavikuna www.feministinn.is/feministavikan
Dagskrá föstudaginn 24. október
kl. 8:15-10 Morgunverðarfundur á Grand Hótel um launamun kynjanna
kl. 16:00-18:00 ECCE FEMINA sýning opnar í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Sjá nánar->

Dagskrá laugardaginn 25. október
kl. 15:00 – 17:00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu
Áfram stelpur! Málþing um kvennabaráttu síðustu áratuga. Í tengslum við samnefnda sýningu í Borgarbókasafni. Sjá nánar->

Dagskrá sunnudaginn 26. október
kl. 20:30 Kvennamessa Kvennakirkjunar í Neskirkju

október 20, 2003

Bréf frá Svíþjóð

Guðrún Ágústsdóttir skrifar frá Stokkhólmi:

Ágætu feministar. Ég er hér í Stokkhólmi og get ekki orða bundist. Les blöð og horfi á fréttir í sjónvarpi, en hef hvergi séð frásögn af könnun þessarar ágætu konu, nema í fréttum á Íslandi.
Hér kemur mitt innlegg í þessa orðræðu.

Þegar Margareta Winberg, fyrrverandi varaforsætisráðherra og jafnréttisráðherra Svía var á Íslandi í byrjun september, þá sagði hún frá því að nýju lögunum frá 1999 þar sem vændiskaupendur eru lögbrjótar, hafi verið tekið afar misvel. Í upphafi voru margir í lögreglunni þessu mótfallnir, en á þeim fjórum árum sem nú eru liðin, hafa þau viðhorf breyst mjög víða í Svíþjóð. Hún og stallsystir hennar sögðu frá því að enn væri lögreglan í Malmö neikvæð og svo nefndi hún svæði í norður Svíþjóð. Árangur af þessum nýju lögum veltur verulega á því hvernig lögreglan framfylgir þeim. Það gefur auga leið. Hún sagði líka að með þessum nýju lögum, þá hefi allt umhverfi kynlífsmarkaðarins breyst verulega. Það er ekki lengur eins spennandi af flytja konur/börn til Svíþjóðar á kynlífsmarkaðinn, eina landsins í heiminum, þar sem það er bannað að kaupa sér þjónustuna.

Það verða alltaf til fræðimenn sem finna nýbreytni eins og þessari, allt til foráttu, og styðja mál sitt með rökum. Þannig var það líka þegar umræða um kynferðisofbeldi hófst fyrir alvöru á Íslandi. Fyrst þegar umræðan um heimilisofbeldi var opnuð í aðdraganda að stofnun Kvennaathvarfsins og svo ekki síður, þegar umræðan um sifjaspell og stofnun Stígamóta varð að veruleika. Rökin voru ýmisleg: t.d. þau að aukin umræða um sifjaspell, myndi fjölga slíkum glæpum. Ofbeldi á heimilium gæti orðið mun grófara og duldara!!!! Og lengi mætti telja. Ég man líka eftir mótrökum gegn leikskólum fyrir öll börn, sem var mikið baráttumál kvenna fyrir 30 árum. Börn yrðu öll að hópsálum, öll steypt í sama mót, stórhættulegt fyrir Ísland!. Slíkar greinar birtust eftir mikilsmetna sérfræðinga í uppeldismálum.

Þau rök gegn nýju lögunum að þau geri vændiskonum erfiðara fyrir að stunda starfsemi sína og að launin hafi lækkað eru léttvæg gegn þeim rökum að sporna við því kynferðisofbeldi sem viðgegnst á kynlífmarkaðnum. Kynlífsmarkaði heimsins, þar sem hærri upphæðum er velt, en í eiturlyfjabransanum. Vændi væri ekki til ef ekki væru til kaupendur. En þeir eru til og þess vegna er "traffiking" nútímaþrælahald af verstu tegund staðreynd, þess vegna eru ungar stúlkur ginntar af milliliðunum, sem græða á kynlífsiðnaðinum. Er virkilega einhver hér á feminstavefnum sem lítur svo á að vændi sé eins og hver önnur þjónusta sem þarf að vera til? Eins og fatahreinsun, hárgreiðslustofa eða fótaaðgerðastofa? Erum við ekki öll sammála um það að vændi er eitt af birtingarformum kynferðisofbeldis? Ég hélt að sú skoðun sem víða er til; að karlar þurfi að geta átt aðgang að heilbrigðum konum sem eru undir góðu eftirliti, til að fá kynferðislega útrás hjá, væri dálítið úrelt og gamaldags fyrir nú utan hvað hún er hættuleg. Hvaða konum á að fórna til að vera á þessum vel reknu vændishúsum? Einhverjum sem við þekkjum? Myndum við vilja beina einhverjum konum sem við þekkjum inn á þessa braut? Við skulum ekki blekkja okkur. Konur sem stunda vændi eru alltaf fórnarlömb.

Kynlífsmarkaðurinn í Ástralíu var gefinn alveg frjáls 1984. Hver er árangurinn? Í borginni Victoria fjölgaði löglegum vændishúsum um meira en helming úr 40 í 94. En það sem er athyglisvert er að ólöglegum vændishúsum fjölgaði ennþá meira. Þar sem kynlífsmarkaðurinn fær að "blómstra" óáreittur, þar eykst einnig eiturlyfjaneysla og önnur lögbrot. (Sjá grein M.Winberg úr Aftonbladet sem birtist hér á vefnum í júlílok s.l.)

Kæru vinir.
Kvenlíkaminn er ekki vara á markaði sem ganga á kaupum og sölum. Ekki er hægt að aðskilja kaup og sölu á konum og börnum "traffiking" frá vændisiðnaðinum. Þessi mál eru samtvinnuð. Sá sem kaupir sér vændisþjónustu misnotar aðra manneskju. Það á að vera lögbrot. Áfram stelpur á alþingi!
kærar kveðjur frá Stokkhólmi, Guðrún Ágústsdóttir

október 17, 2003

Feministar nær og fjær.

Oft var þörf en nú er nauðsyn. Mér skilst að frumvarp Kolbrúnar og félaga sé nálægt því að komast á dagskrá. Fylgjumst vel með (það má sjá dagskrána á vef Alþingis) og verum í viðbragðsstöðu. Ef við fyllum pallana og sýnum samstöðu þá eru það sterk skilaboð. Sendum út boð á netinu um leið og ljóst verður hvenær frumvarpið kemst á dagskrá. NÚ ER AÐ SÝNA SAMSTÖÐU OG ÞRÝSTA Á ÞINGMENN!!!

Kv.
Kristín Ástgeirsdóttir.

október 10, 2003

Um ábyrgð þeirra sem birta auglýsingar

Katrín Anna talskona femínistafélagsins var í Ísland í bítið í morgun og stóð sig vel að vanda. Einnig hafði verið boðið fulltrúum frá nokkrum unglingavefjum sem hafa vísað á klámefni en enginn aðili frá þeim treysti sér til að sitja fyrir svörum. Katrín Anna sagði frá aðgerðum Femínistafélagsins varðandi óábyrgar auglýsingar. Markmiðið er að gera auglýsendur meðvitaðri um hvers konar efni er að finna á vefsíðum sem þeir auglýsa á. En það er ekki bara ábyrgð hjá auglýsendum, það er líka ábyrgð hjá miðlunum sem birta slíkar auglýsingar. Okkur barst í dag bréf frá ungri konu í Reykjavík sem heldur mikið upp á ákveðna útvarpsstöð en er núna hætt að hlusta á hana. Hér er partu úr bréfinu:

"Ég er ung kona í Reykjavík sem hef fylgst með starfi femínistafélagsins og er á póslistanum. Mig langaði að benda ykkur á eina auglýsingu á Radíó Reykjavík, sem er útvarpsstöð á 104,5. Hún er frá "næturklúbbnum" Bóhem og er frekar dapurleg. Ég man hana ekki orðrétt en þar segir karlmannsrödd frá staðnum í þannig tón eins og hann sé að segja manni leyndó, hann talar lágt, leyndardómsfullt og allt að því tælandi, um hvað það sé gott að koma á Bóhem, stelpurnar "þeirra" sjái um að manni líði vel o.s.frv. og svo er það besta við þetta að konan þarf ekki að fatta neitt!

Mér finnst þetta mjög ósmekkleg auglýsing, sérstaklega þar sem að ég var að keyra í bíl með ungum bróður mínum og hef hingað til ekki haldið að maður þyrfti að passa sig á útvarpinu í návist barna hvað varðar auglýsingar frá strippbúllum. Eða hvers konar skilaboð eru það til ungra karlmanna (sem eru markhópur stöðvarinnar) að það sé allt í lagi að fara á strippbúllur, það sé rosalega töff, og svo þurfi nú "kellingin" ekki að fatta neitt. Þetta er svona leyndó "okkar strákanna." Þó að stjórnendur RR segi að markhópurinn þeirra sé karlmenn á aldrinum 18-35 ára eða þar um bil er það engin trygging fyrir því að yngri krakkar séu ekki að hlusta. "

Sýning um kvennahreyfinguna síðustu fjóra áratugi

Áfram stelpur !

Aðeins fáeinir mánuðir eru síðan Femínistafélag Íslands var stofnað, en það hefur þegar vakið mikla athygli almennings og komið af stað umræðu um kynjamisrétti hverskonar. Svo virðist sem margir hafi gleymt gömlu kvennahreyfingunum og aðrir telja að ekki sé lengur þörf fyrir slíka umræðu.

Hverjar voru Úurnar? Rauðsokkur? Kvennaframboðið? Kvennalistinn? Hverjar eru Bríeturnar og hvað er Femínistafélag Íslands? Hvað gerðist á Kvennafrídaginn 24. október 1975? Þetta er hluti af þeim spurningum sem verður svarað á sýningunni “ÁFRAM STELPUR !” sem opnar laugardaginn 11. október nk í Grófarhúsi Tryggvagötu 15.

Að sýningunni standa Borgarskjalasafn Reykjavíkur og Kvennasögusafn Íslands, samvinnu við Femínistafélag Íslands. Sýnd eru skjöl og munir tengdum ofangreindum kvennahreyfingum. Sýningunni er ætlað að vekja forvitni gesta á þessum hreyfingum og hvetja þá til að halda til haga gögnum sem tengjast þeim og hugleiða varðveislu þeirra fyrir komandi kynslóðir. Söfnin taka bæði á móti slíkum skjölum og munum er tengjast kvennahreyfingunni.

Sýningin er haldin á Reykjavíkurtorgi, á 1. hæð Grófarhúss, Tryggvagötu 15. Húner opin mánudaga til fimmtudaga kl.10-20, föstudaga 11 til 19 og helgar kl.13-17. Hún stendur til 2. nóvember og er aðgangur ókeypis.

október 09, 2003

Saman gegn óábyrgum auglýsingum



Þessi frétt birtist í Morgunblaðinu í morgun:

Birta-Vefauglýsingar og Femínistafélag Íslands hafa hafið samstarf á sviði vefauglýsinga. Markmiðið með samstarfinu er að gera auglýsendur meðvitaðri um hvers konar efni er að finna á þeim vefsíðum sem auglýst er á og að þeir geti treyst því að auglýsingar þeirra birtist ekki á vefmiðlum sem innihalda efni sem er niðurlægjandi fyrir karla eða konur.
"Til eru vefmiðlar sem hafa miður æskileg áhrif á hugarfar ungs fólks. Þar er umdeilanlegu efni oft faglega pakkað inn og það sett fram á gamansaman hátt til að draga úr alvöru innihaldsins. Þannig verður auðveldara fyrir fólk að missa sjónar á raunverulegu inntaki efnisins," segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá Femínistafélagi Íslands og Birtu Vefauglýsingum.


Skiptir máli hvert peningarnir fara
Að sögn Katrínar Önnu Guðmundsdóttur, talskonu Femínistafélagsins og M.Sc. í viðskipta- og markaðsfræði, ber mikið á því að auglýsendur átti sig ekki á því að klám og annað svæsið efni sé borið á borð fyrir netnotendur, sem jafnvel séu börn. "Við viljum vinna með auglýsendum. Þótt vefurinn sé mjög góður til að ná til fólks ef auglýst er á réttum stöðum þá verða auglýsendur að gæta sín og vinna með faglegum hætti," segir Katrín Anna.
Að sögn Magnúsar Orra Schram, framkvæmdastjóra Birtu Vefauglýsinga, er fyrirtækið nokkurs konar birtingarhús Netsins. Með samstarfinu við Femínistafélagið vilji það auka traust auglýsenda á fyrirtækinu. "Við hjá Birtu erum mjög ánægð með þetta samstarf við Femínistafélagið. Frumkvæðið kemur frá þeim en nú ætlum við að vinna saman að því að auglýsendur geti treyst því að vera ekki bendlaðir við misjafnt efni. Við erum alltaf að ráðleggja auglýsendum hvernig þeir eigi að verja peningum sínum á Netinu. Með þessu samstarfi erum við í raun að innsigla það að auglýsendur geti treyst því að auglýsingar þeirra fari ekki inn á svona staði á Netinu. Við viljum reyna að nálgast umræðuna á faglegan máta og benda auglýsendum á að vara sig á því hvar þeir setja peningana sína," segir Magnús Orri.

Að sögn Katrínar Önnu eru einstaka íslensk vefsvæði með grófar klámmyndir og jafnvel myndir af limlestum líkum. "Ég tel að fólk geri sér ekki grein fyrir því í raun og veru hversu skaðlegt þetta efni er, en það er mikið til ungt fólk sem er að fara inn á þessar síður. Með þessu samstarfi okkar við Birtu Vefauglýsingar ætlum við að reyna að auka fagmennsku í vinnubrögðum enda vilja fyrirtæki ekki tengjast óæskilegu efni hvar sem það er að finna, á Netinu eða annars staðar," segir Katrín Anna.

Fjórtán Þingkonur styðja bann við kaupum á vændi

Tenglar
Femínistaspjall
Femínistadagatal
Starfshópar
Femínistapóstilistinn
Kynjafræði HÍ
Vera
Rannsóknarstofa í kvennafr.
Jafnréttisstofa
Bríet
Tíkin
Kvennasögusafn
Kvenréttindafélag Íslands
Jafnréttisnefnd Hí
Stígamót
Kvennakirkjan
Simone(mbl.is)
Konur(mbl.is)
Femíniskar raddir(kistan.is)
Femínistar Salvör
Myndir Salvör
Um félagið
Viltu gerast félagi?