Feministinn

feministinn.blogspot.com

maí 28, 2003

Myndir - Kynjuð stjórnmál
Myndir og frásögn og framsöguerindi frá fundinum Eru stjórnmál kynjuð - Staða kvenna
http://www.feministinn.is/myndir/kynjud-stjornmal/

maí 27, 2003

Eru stjórnmál kynjuð?
Staða kvenna í íslenskum stjórnmálum


Kvenréttindafélag Íslands, Feministafélag Íslands og Mannréttindaskrifstofa Íslands boða til morgunverðarfundar um stöðu kvenna í íslenskum stjórnmálum í kjölfar kosninga og ríkisstjórnarmyndunar. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel miðvikudaginn 28. maí kl. 8.15.

Rósa Erlingsdóttir stjórnmálafræðingur og Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastjóri MRSÍ flytja stutt erindi en síðan verða umræður með þátttöku fulltrúa stjórnmálaflokkanna.

Fundarstjóri verður Þorbjörg Inga Jónsdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Frá Framsóknarflokknum kemur Árni Magnússon nýskipaður félagsmálaráðherra, frá Frjálslynda flokknum Magnús Þór Hafsteinsson alþingismaður, frá Samfylkingunni Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður og borgarfulltrúi, frá Sjálfstæðisflokknum Sigríður Anna Þórðardóttir alþingismaður og frá Vinstri grænum Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður.

Fundurinn er öllum opinn.

F.h. Undirbúningshóps
Kristín Ástgeirsdóttir
Framkvæmdastjóri MRSÍ

maí 26, 2003

Myndir frá opnun sýningar 23. maí


Staðalímyndarhópur stóð fyrir uppákomum í kringum fegurðarsamkeppnir á föstudagskvöldið 23. maí.
Myndir frá opnun sýningarinnar Afbrigði af fegurð

Fundur í ungliðahópi mánudaginn 26. maí

Í kvöld, mánudaginn 26. maí, verður haldinn fundur í hópi ungra feminista (ungliðahópnum), kl. 20:00. Fundarstaður er heimili undirritaðrar að Þingholtsstræti 21 (lágreist hús, ská á móti gatnamótum við Bókhlöðustíg). Helstu mál á dagskrá eru kosning kjölfesta hópsins, aðgerðaáætlun, samstarf við fræðsluhóp um starf inni í framhaldsskólum o.fl. Allir velkomnir!

Bestu kveðjur,
Birna Þórarinsdóttir
s: 847-0052

maí 23, 2003

Morgunverðarfundur 28 maí kl. 8.15
á Grand Hótel
Staða kvenna í íslenskum stjórnmálum

Feministafélag Íslands, Kvenréttindafélag Íslands og Mannréttindaskrifstofa Íslands boða til morgunverðarfundar miðvikudaginn 28. Maí kl. 8.15 á Grand Hótel (Gullteigur A). Þar verður rætt um stöðu kvenna í íslenskum stjórnmálum í kjölfar kosninga og ríkisstjórnarmyndunar. Fluttar verða tvær stuttar framsögur og síðan verða umræður með þátttöku fulltrúa stjórnmálaflokkanna.

Fegurðarsamkeppnir, lótusskór og silikon
Staðalímyndarhópur Femínistafélagsins stendur fyrir sýningunni Afbrigði af fegurð sem verður opnuð í húsakynnum kvikmyndagerðarinnar Cut’n Paste, Íslandi, Síðumúla 12 í kvöld 23. maí, kl. 20:30 og heldur áfram á Prikinu.

Salvör Gissurardóttir skrifar þennan pistil á póstlistann í dag:

Mér finnst fegurðarsamkeppnir vera mjög áhugaverðir ritúalar sem endurspegla þrá eftir fullkomnun - stundum með því að gera alla sem taka þátt eins og stundum er leiðin að meiri fegurð ritúall eins og manndómsvígsla eða krossferð með þjáningum og pyndingum sem breyta líkamanum.

Fegurðarsamkeppnir virðast líka keppnir í að vera sem mest eins. Eins háralitur. Eins hárgreiðsla. Eins augnabrúnir. Eins munnsvipur. Eins augnaráð. Eins tennur. Eins kjálkabygging. Eins nef. Eins húðlitur. Eins förðun. Þarna sér maður hvernig Eðal-Íslendingur af kvenkyni á að líta út - svona norrænt yfirbragð og hjarðmeyjarlegt útlit, upplitsdjarfar, hraustlegar, ákveðni í svipnum en þó milt yfirbragð.

Hver skyldi svo vinna í svona EINS keppni? Sú sem er mest eins - sú sem er mest lík öllum hinum eða mest lík einhverri fullkominni fyrirmynd? Eða sú sem er fulltrúi fyrir eitthvað sem þeim sem velja finnst vert og tímabært að draga fram. Árið 1945 að aflokinni heimstyrjöld varð stúlka af gyðingaættum fegurðardrotting Ameríku. Árið eftir sprengiárásirnar í fylkinu Oklahoma þá vann fegurðardrottning frá því fylki Ameríkukeppnina. Þegar ég var við nám í USA þá varð svört kona fegurðardrottning Ameríku. Strax eftir krýninguna var hún umkringd af fjölmiðlafólki og spurð hvað eftir annað eitthvað hvernig væri að vera svört og vinna svona keppni. Hún sagði þessi orð: "Being black is the least of what I am" og allt ætlaði að verða vitlaust í pressunni næstu daga, hún var ásökuð fyrir að afneita uppruna sínum og skammast sín fyrir að vera svört.

Ég hef heyrt samfélagsfræðinga og síðnútímafræðinga (postmodernista) tala um ÖÐRUN (þýðing á "othering") sem einhvers konar leið til að skilja milli síns og hinna, að framandgera og draga fram í dagsljósið allt sem getur búið til bil og sýnt að einhverjir séu öðruvísi.

Ég held helst að það sem fer fram í svona fegurðarsamkeppnum sé andstæðan við það, kannski frekar einhver skonar EINSUN eða leit að einhverju sameiginlegu viðmiði - svona eins og að finna minnsta hugsanlegan samnefnara. Einhvern sem smellpassar í tilbúið mót - kannski skó eins og í sögunni um Öskubusku.

Fegurðarímynd samfélagsins þröngvar einhverju tilbúnu normi upp á fólk, kannski sérstaklega ungt fólk eða ungar stúlkur. Kannski er sú kvöl og pína sem fólgin er í að nálgast og aðlagast þetta fegurðarnorm einn liður í félagsmótun samfélagsins. Þannig var því varið um þúsundir ára í Kína þegar fætur ungra stúlkubarna voru reyrðar og brotnar til að fylgja ákveðnu fegurðarnormi. Kannski er sú lögun líkamans sem fram fer með megrunum og svo silikoninnsprautun líka eitthvað dýpra en líkaminn, kannski er þetta lífspeki nútímans og einhver tilraun til að hafa hömlur á hlutunum. Það var heimspeki Konfúsíusar sem síaðist inn í stúlkurnar sem voru örkumlaðar smám saman í Kína með þessum reyrðu fótum en hvaða siðspeki og fegurðarsýn er það sem örkumlar nútímastúlkur?

bestu kveðjur,
Salvör Gissurardóttir

maí 22, 2003

Í kjölfar Alþingiskosninga
Málþing um lýðræði og kynja- og byggðasjónarmið



Haldið á vegum Félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri í samvinnu við Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð.

Staður: Háskólinn á Akureyri, Sólborg, stofa L101
Stund: Föstudagur 23.maí, kl. 9:00 12:00
Fundarstjóri: Elín Hirst

Dagskrá

9.00 Erindi
Setning: Mikael Karlsson,deildarforseti félagsvísinda og lagadeildar HA
Hvers vegna á hlutfall kynja á þingi að vera jafnt? - Valgerður H. Bjarnadóttir
Er rétt að spila alltaf maður á mann? - Grétar Þór Eyþórsson
Konur, kosningar og kjördæmaskipan - Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir
Skiptir kyn nokkru máli í stjórnmálum? - Sigríður Andersen
Eru byggðasjónarmiðin hindrun á vegi kvenna í stjórnmálum? Svanfríður Jónasdóttir

10.15 Kaffihlé

10.30 Erindi
Flokksforysta ræður framgangi kvenna: Una María Óskarsdóttir

10.45 Pallborð með fulltrúum stjórnmálaflokkanna

Í nýafstöðnum þingkosningum fækkaði konum á alþingi Íslendinga. Á sama tíma fjölgaði fulltrúum Reykvíkinga. Sú spurning hlýtur að vakna hvort þessar breytingar á samsetningu þingsins skipti raunverulega einhverju máli. Hver eru grundvallarrök fyrir nauðsyn þess að konur séu ámóta margar og karlar í forystusveit (íslenskra) stjórnmála? Með sama hætti má spurja hvort eitthvað sé við það að athuga að mikill meirihluti þingmanna komi frá Reykjavík og nágranna byggðarlögum höfuðborgarinnar? Hvaða kröfur gerir lýðræðið til samsetningar þingsins?
Þjónar það hagsmunum allra að gera landið að einu kjördæmi? Á málþinginu verður leitað svara við því hvaða lýðræðislegu sjónarmið beri að hafa að leiðarljósi við kjördæmaskipan og skipan sæta á lista stjórnmálaflokkanna þannig að réttlátt geti talist.

maí 21, 2003

Bleikir bolir fyrir sumarið!
Nú er hægt að kaupa bleiku-1.maí-femínista-bolina í:
Spútnik Laugavegi 51 s. 561-7060
Spútnik Kringlunni s. 533-3080
Einnig verður hægt að fá þá í versluninni GK Laugavegi 66 s. 551-9009
Verðið er 1500.

Bolirnir eru með ýmis konar áletrunum t.d.
Bolir 1
Bolir 2
Bolir 3

maí 20, 2003

Tjáning á sér ekki stað í tómarúmi

Umræða var í vikunni á femínistapóstlistanum um tjáningarfrelsi blaða og tímarita. Meðal annars var til umræðu blað um tónlist fyrir ungt fólk sem dreift hefur verið ókeypis og legið víða frammi. Í þessu blaði var fyrir nokkrum árum nokkuð um klámfengið efni en svo er ekki nú.

Guðrún Helgadóttir skrifar á póstlistann:"....þegar fólk er að tjá sig á opinberum vettvangi þá getur það ekki gengið útfrá því að sú tjáning beinist einungis að ákveðnum markhóp. Auglýsing á strætisvagni eða grein í blaði sem er dreift ókeypis í miklu upplagi í skólum, kaffihúsum etc. er allt annars eðlis en auglýsing í klámblaði eða grein á lokuðum póstlista, einfaldlega vegna þess að tjáning á sér ekki stað í tómarúmi. Tjáning er liður í samskiptum. Tjáningarfrelsinu fylgir líka sú ábyrgð að særa ekki eða niðurlægja þá sem verða fyrir henni (eiga í samskiptum við þann sem tjáir sig hvort sem það er beint eða óbeint t.d. í gegnum fjölmiðil) - og allri tjáningu fylgir sú áhætta að hún veki viðbrögð annarra. Það þýðir því ekkert að vaða fram með klám, stríðsáróður eða gífuryrði um skoðanir fólks, svo eitthvað sé nefnt, og verða svo voða hissa og sár yfir að einhver hafi athugasemdir eða frábiðji sér að þurfa að verða fyrir slíkri tjáningu."

maí 16, 2003

Biðin

Sigurbjörg Ásgeirsdóttir
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 3. maí 2003 og er birt hérna með leyfi greinarhöfundar.

Stjórnmálamenn, fjölmiðlar, álitsgjafar og aðrir þeir sem til eru kallaðir að meta stöðuna tala um að loksins sé þrjátíu ára bið Austfirðinga eftir stóriðju lokið. Það sé rétt að gleðjast með þeim og láta af öllu nöldri. Að vísu hefur Morgunblaðið minnsta kosti einu sinni skrifað í leiðara um að málstaður andstæðinganna sé nokkuð sem taka þurfti tillit til og ekki eigi að gera lítið úr. Nánari útfærsla á þeirri sáttargjörð hefur þó ekki litið dagsins ljós. Virkjunar- og stóriðjumálið er þó ekki ástæða þess að ég sé mig knúna til að stinga niður penna heldur notkunin á hugtakinu bið.

Saga byggðar á Íslandi spannar samkvæmt rituðum heimildum um það bil ellefu hundruð og þrjátíu ár. Það er í hæsta máta líklegt að konur hafi búið hér nánast jafnlengi og karlar, í það minnsta hafa ekki liðið margir áratugir sem karlar hafa verið hér einir. Allan þennan tíma hafa konur búið við lakari kjör en karlar og mátt sæta því að samfélagið hafi verið mótað út frá sjónarmiðum og þörfum karla. Það er fyrst í byrjun síðustu aldar sem kvenfrelsisbarátta hefst af fullum krafti á Íslandi. Með fyrstu bylgju kvenfrelsis náðist kosningaréttur og jafn réttur til embætta og náms. Það tók síðan alla öldina að koma á þeirri skipan að sjálfsagt væri að konur væru í stjórnmálum, sæktust eftir embættum og stunduðu nám til jafns við karla.

Á þeim þrjátíu árum sem Austfirðingar hafa beðið eftir stóriðju hafa konur flykkst í nám og eru nú orðnar fleiri en karlar í skólum. Konur eru í meirihluta nemenda Háskóla Íslands og þar hafa þær aflað sér menntunar á sviði kynjafræði og í mörgum deildum skólans eru námskeið sem skoða viðkomandi fræðigrein út frá kynjuðu sjónarhorni. Þessi þróun er afsprengi annarrar bylgju kvenfrelsis sem hófst með stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og síðan Kvennalistans. Í þessu tvennu, formlegri menntun og reynslu af starfi í þessum tveimur hreyfingum, felst gífurlegur auður í formi þekkingar á stöðu kvenna á Íslandi árið 2003.

Eitt hefur þó ekki breyst sem nokkru nemur og á ég þar við launamun kynjanna. Kynbundinn launamunur er staðreynd og skiptir þar ekki öllu hvort hann er 24% eða 37% eða jafnvel enn meiri, heldur hvað er hægt að gera til að útrýma honum. Það er nefnilega hægt því hér er um mannasetningu að ræða, en ekki náttúrulögmál. Það hefur sýnt sig í fordæmi Reykjavíkurborgar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Verzlunarmannafélags Reykjavíkur í að styðja konur til að gera kröfur í launamálum. Því miður eru fáir sem fetað hafa í fótspor þeirra og flestum virðist standa á sama um bið kvenna eftir jöfnum launum á við karla.

Í komandi kosningum er því mikilvægt að konur skoði vel hvað flokkarnir ætla að gera í launa- og atvinnumálum kvenna. Við höfum beðið í þrjátíu ár líkt og Austfirðingar og vel það og ættum því að fá sömu skjótu lausnirnar og þeir fengu eftir sína bið. Það eru fá ár síðan Jafnréttisstofa komst að þeirri niðurstöðu að það tæki 114 ár að jafna launamuninn. Aðgerðir Reykjavíkurborgar hafa að vísu orðið til að stytta þessa bið, en samt tæki biðin næstum því meðalmannsaldur þegar á heildina er litið. Og það er nokkuð sem við femínistar ætlum ekki að sætta okkur við.

Stjórnmálaflokkarnir verða því að svara af hverju þeir setja konur ekki á sama bekk hvað mikilvægi varðar og þá sem vilja eindregið stóriðju, og sýna um leið fram á hvernig afleidd störf vegna framkvæmdanna, sem koma að líkindum í hlut kvenna, verða metin til launa.

Raddir úr sveitinni

Á femínistapóstlistanum eru femínistar frá öllum heimshornum og alls staðar að á landinu. Á listanum tala femínistar sem búa í Reykjavík, Úganda, Bretlandi, Ísafirði, Spáni, Boston, Kaupmannahöfn, Akureyri, Helsinki og Mosamik svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru þar femínistar sem búa í sveit á Íslandi. Í dag var sagði femínisti á Hvolsvelli frá því að hún hefði vakið athygli Bændablaðsins á femínistapóstlistanum og vonaðist eftir umfjöllun þar því þetta sjónarmið vantaði núna í blaðinu.

Guðrún Helgadóttir sem býr á Hólum í Hjaltadal og starfar þar við háskólann skrifaði líka í dag á femínistapóstlistann:
"Stór hluti nemenda í ferðamálanáminu hér við Hólaskóla eru konur í dreifbýli sem eru að vinna að því að auka sína menntun og tekjumöguleika. Við erum líka með þróunarverkefni í gangi, t.d. eitt sem heitir Routes og snýst um sjálfsnám (www.holar.is/routes/). Ég finn mjög vel hvað konurnar sem koma í nám eflast að sjálfstrausti á öllum sviðum þannig að vinnan hér er eiginlega bæði í þágu jafnréttis kynja og jafnréttis til búsetu. Þar sem hlutur kvenna í námi hjá okkur búnaðar- og garðyrkjukennurum fer vaxandi, má segja að þar sé verið að vinna hljóðlátt jafnréttisstarf, enda benda allar rannsóknir á byggðaþróun til að það mikilvægasta í byggðaþróun sé atvinna og búsetuskilyrði kvenna."

maí 14, 2003

Hraustar stelpur eru flottar stelpur

Nú fer fram mikil umræða og skoðanaskipti á femínistapóstlistanum um knattspyrnu og klám og léttklæddar knattspyrnukonur. Rætt er að við þurfum að vera meðvituð um þau skilaboð sem við sendum þegar við sýnum jákvæð viðbrögð þegar kynlíf er notað sem sölutrix. Töluverð umræða er um auglýsingar með léttklæddum knattspyrnukonum. Sumum finnst auglýsingar eins og íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu smellnar því þar sáust hraustar, flottar og stæltar stelpur, sem ætluðu að fara að berjast fyrir Íslands hönd, ólíkt þeim vannærðu fyrirmyndum sem yfirleitt er haldið að konum.

Fólki finnst ekki þessar myndir sem sagðar eru vera af brasilíska kvennalandsliðinu sem eru inn á síðunni fotbolti.net eiga heima á síðu um knattspyrnu og margir hafa áhyggjur af slíkri þróun og benda á að klám og knattspyrna eiga ekki samleið.

Knattspyrnukonur okkar beittu á sínum tíma óhefðbundum auglýsingum til að fá fólk á völlinn með góðum árangri. Þær hefðu sjálfsagt ekki þurft þess ef karlar og konur hefðu fjölmennt og sýnt stuðning sinn í verki. Bent er á að árangur kvennalandsliðsins í fótbolta er mjög góður en fjömiðlaumfjöllun ekki í samræmi við það.

maí 13, 2003

Á að bíða eftir að verða velkomnar?
Mikil umræða fer nú fram um úrslit kosninganna á femínistapóstlistanum. Guðrún Helgadóttir póstar eftirfarandi 12. maí:
Mig langar að taka upp þráðinn frá Kristínu:
Þetta er því ekki (bara) spurning um að konur eigi að mæta og "trana" sér fram, þær þurfa að finna að þær séu velkomnar og þeirra mál! Ég er sammála þessu.

En jafnframt er ég aðeins hugsandi yfir því hversu miklum árangri við munum ná ef við bíðum eftir að verða velkomnar. Það er öruggt mál að konur í stjórnmálum þurfa að berjast fyrir stöðu sinni sem samkeppnisaðili við karlana sem eiga að heita skoðanabræður þeirra - og konur í öðrum flokkum. Það er erfið staða en líklega nauðsynleg afstaða að fara fram á það við konur að þær hugsi fyrst um hvort þær eigi erindi, þ.e. hafi hugsjónir og hugmyndir, og spyrja svo hvort þær séu velkomnar. Og þeirri spurningu verður ekki endilega svarað játandi, en þýðir það að viðkomandi eigi ekki erindi ?

En, getum við ekki boðið konur velkomnar ? Hvað finnst ykkur um að feministafélagið sendi öllum kvenframbjóðendum kveðju með viðurkenningu fyrir þátttökuna og ósk um að þær beiti sér fyrir jafnrétti í sínu starfi að stjórnmálum ? T.d. eitthvað á þessa leið:

Kæra.... Við feministar teljum framlag kvenna til stjórnmála og þátttöku þeirra á þeim vettvangi mikilvægan lið í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Því hefur verið haldið fram að konur sækist síður en karlar eftir ábyrgðar- og valdastöðum og í ljósi þess er fordæmi kvenna sem taka virkan þátt í stjórnmálum og axla þar ábyrgð mikilvægt. Því viljum við þakka þér fyrir að bjóða þig fram til alþingiskosninga og vonum að þú munir leggja jafnréttismálum gott lið í þínu starfi að stjórnmálum.

Látum ekki hretið skemma fyrir okkur feministavorið !

Guðrún Helgadóttir

Látum feminismann blómstra hérna á vefnum

Rúna skrifar á póstlistann 13. maí:
Feministafélagið þarf að taka afstöðu til þess hvers konar félagsskapur við viljum vera. Það voru til fyrir kvennafélög sem passa upp á að valda ekki usla eða styggja nokkurn mann. Ágætis félög sem gert hafa margt gott en eru ekki líkleg til þess að breyta samfélaginu. Það þarf ekki fleiri slík. Ég er farin að fá ýmis skeyti frá fólki sem ekki tekur lengur þátt í umræðunum á feministanum því eins og ein sagði" það er búið að eyðileggja hann með andfeminiskum og stundum hatursfullum bréfum sem látin eru óátalin". Það virðist sumsé eiga sér stað þöggun og þær konur sem ég met mikils og voru svo glaðar yfir þessum miðli nenna ekki lengur að vera með og það er alvarlegt.

Það er minn draumur að við verðum trúar kvennahreyfingunni, þorum að ýta við gömlum gildum og hrista upp í samfélaginu með metnaðarfullri og málefnalegri umræðu. Að við setjum okkur metnaðarfull og róttæk markmið, að við nýtum okkur að hafa náð saman því skýra, frjóa fólki með alls
kyns mikilvæga þekkingu sem hér hafa skrifað, að við þorum að andmæla þeim sem ráðast á hugmyndir okkar, að við leyfum okkur að segja frá draumum okkar og látum ekki þagga niður í okkur aftur!

Tilfinning mín gagnvart Feministafélaginu er ekki ólík þeirri sem ég hafði í kvennaverkfallinu 1975 en hún var einhvern veginn svona; Hvílíkur kraftur, hvílík samkennd! Eftir þennan dag verður ekki aftur
snúið, við hljótum að finna leiðir til þess að virkja þennan kraft.

Feministar, biðjumst ekki afsökunar á okkur, hræðumst ekki öfgakennd viðbrögðin við félaginu, þau eru merki um að það sé virkileg þörf fyrir okkar málflutning. Þögnum ekki aftur og missum ekki sjónar af því hvers vegna við náðum saman! Það er mikil þörf fyrir okkur og við höfum þegar náð árangri.

Látum feminismann blómstra hérna á vefnum

Guðrún (Rúna)

maí 08, 2003

1. maí og kosningar

Stjórnmálahópur Femínistafélagsins hefur safnað saman jafnréttisáætlunum flokkanna.

Á fyrsta maí 2003 gengu femínistar í fyrsta skipti í kröfugöngunni frá Hallgrímskirkju niður í bæ. Mörg verkalýðsfélög og þrýstihópar tóku þátt í göngunni. Það voru 300-500 femínistar í göngunni og margir voru í bleikum bolum með ýmis konar áletrunum. Þetta var stærsti hópurinn í göngunni. Það var ljóst að hér var komið sterkt pólitískt afl. Þess vegna þykir furðulegt að fjölmiðlar tóku ekki eftir neinu. Lesið um þöggunina hér. Eða skoðið myndir frá göngunni og fundi femínista.

Einn femínisti heyrði á tal konu og manns sem fylgdust með göngunni fara hjá:
Konan: "Vá, hvað þeir eru margir..."
Maðurinn: "Ha? Hverjir?
Konar: "Nú femínistarnir.."

Tenglar
Femínistaspjall
Femínistadagatal
Starfshópar
Femínistapóstilistinn
Kynjafræði HÍ
Vera
Rannsóknarstofa í kvennafr.
Jafnréttisstofa
Bríet
Tíkin
Kvennasögusafn
Kvenréttindafélag Íslands
Jafnréttisnefnd Hí
Stígamót
Kvennakirkjan
Simone(mbl.is)
Konur(mbl.is)
Femíniskar raddir(kistan.is)
Femínistar Salvör
Myndir Salvör
Um félagið
Viltu gerast félagi?